- Elkem Iceland
- Umhverfismál
- Umhverfisþættir

Notkun auðlinda og framleiðsluvörur
Umhverfisþættir eru þeir þættir í starfsemi Elkem Ísland sem geta haft áhrif á umhverfið, til dæmis urðun aukaafurða og losun efna í andrúmsloft. Til umhverfisáhrifa telst einnig nýting á náttúruauðlindum, svo sem orku, vatni, hráefnum og landi.
Orka, vatn og hráefni
Auðlindir sem Elkem Ísland nýtir í framleiðsluferlinu eru orka, vatn og hráefni. Orkan sem Elkem Ísland notar er framleidd úr vatnsorku sem er endurnýjanleg orkuauðlind. Vatn er auk þess mikilvægt fyrir kælingu í framleiðsluferlinu en það er helst notað til að kæla málm við útsteypingu og við kælingu á búnaði.
Hráefni sem notuð eru til framleiðslu kísilmálms eru kvars, járngrýti og kolefnisgjafar í formi kola, koks og timburkurls. Að auki er olivinsandur, kvarssandur og kalksandur notaður sem íblöndunarefni. Hráefnin koma frá viðurkenndum birgjum og eru flutt til landsins með skipum víðs vegar að úr heiminum. Íslensk hráefni eru timburkurl, sem Sorpa framleiðir úr úrgangstimbri, og grisjunarviður frá Skógrækt ríksins.
Unnið er stöðugt að því að draga úr myndun ryks við meðhöndlun hráefna. Til að mynda eru hráefni vætt við uppskipun og athafnasvæðið er reglulega sópað. Kröfur eru gerðar til birgja um að lágmarka hlutfall fínefna (ryks) í hráefnaförmum. Stöðugt er unnið að því að bæta nýtingu hráefna og orku.
Umhverfisáhrif hráefna tengjast aðallega brennslu jarðefnaeldsneytis við efnistöku, vinnslu þeirra og flutning til landsins auk þess sem fínefni geta fokið við uppskipun. Um er að ræða óendurnýjanlegar auðlindir að timburkurlinu undanskildu. Með því að nota timburkurl minnkar Elkem notkun á óendurnýjanlegum kolefnisgjöfum.
Andrúmsloft
Í starfsleyfi Elkem eru skilgreind viðmiðunarmörk varðandi framleiðslu, útblástur, reykhreinsivirki og neyðarreyklos. Við framleiðslu kísilmálms myndast m.a. kolefnistvíoxíð (CO₂), brennisteinstvíoxíð (SO₂) og nituroxíð (NOX) sem berast út í andrúmsloftið eftir hreinsivirki. Kísilryk er hreinsað í reykhreinsivirkjum verksmiðjunnar áður en afsog frá framleiðslunni fer út í andrúmsloftið.
Við náttúrulegar aðstæður eru frumefnin kísill og járn bundin súrefni. Við framleiðslu á kísilmálmi þarf að losa súrefnisfrumeindir frá sameindum málmgrýtisins. Til þess er notað kolefni sem binst súrefni og myndar kolefnistvíoxíð (CO₂). Kolefnistvíoxíð er gróðurhúsalofttegund sem veldur hnattrænum gróðurhúsaáhrifum sem hefur áhrif á hlýnun jarðar. Ekki eru til aðferðir til að minnka kolefnistvíoxíð úr útblæstrinum en hægt er að minnka losun t.a.m. með notkun lífmassa en losun lífmassa hafa verið um 50.000 tonn á ársgrundvelli.
Við hjá Elkem höfum sett okkur markmið umfram lágmarkskröfur í starfsleyfi vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Við ætlum:
- Að minnka kolefnisfótspor starfseminnar um 50.000 tonn af CO₂ fyrir árslok 2025 miðað við árið 2018.
- Að viðhalda stöðugleika í rekstri þannig að ofnrekstur allra ofna án neyðarreyklosunar haldist yfir 99,95% á ársgrundvelli.
- Að draga úr rykmyndun vegna starfseminnar úr 90 tonnum 2018 niður í 50 tonn fyrir árslok 2025 með fjárfestingu í nýjum búnaði og þátttöku starfsfólks.
Aukaafurðir
Það er stefna Elkem Ísland að endurnýta eða endurvinna allar aukaafurðir sem falla til við framleiðsluna, lágmarka sóun og auka sjálfbærni rekstursins. Elkem Ísland vinnur samkvæmt áætlun um endurnýtingu og meðhöndlun aukaafurða.
Elkem Ísland gerir einungis samninga við viðurkennda aðila um meðhöndlun aukaafurða og fer fram á að urðunarstaðir séu viðurkenndir og með starfsleyfi. Aukaafurðir eru skráðar og flokkaðar í þar til gerð merkt ílát. Árlega eru 32.000-40.000 tonn endurnýtt í framleiðsluferilinum eða seld.
Elkem Ísland hefur heimild í starfsleyfi til að urða ákveðnar aukaafurðir, sem falla til við framleiðsluna, í flæðigryfju við Grundartangahöfn. Árið 2012 var sú krafa sett að flæðigryfjan hefði sérstakt starfsleyfi. Flæðigryfjan er í umsjón Faxaflóahafna og er með starfsleyfi sem tók gildi árið 2014.
Við hjá Elkem Ísland drögum markvisst úr áhrifum starfseminnar á innra og ytra umhverfi með nákvæmni í vöktun og stýringu á mikilvægum umhverfisþáttum. Við ætlum:
- Að hámarka meðhöndlun aukaafurða þannig að 97% þeirra fari til endurnýtingu eða endurvinnslu fyrir árið 2025.