Andrúmsloft

Framleiðsla, útblástur, reykhreinsivirki og neyðarreyklos

Í starfsleyfi Elkem eru skilgreind viðmiðunarmörk varðandi framleiðslu, útblástur, reykhreinsivirki og neyðarreyklos.
Við framleiðslu kísilmálms myndast m.a. kolefnistvíoxíð (CO₂), brennisteinsdíoxíð (SO₂) og köfnunarefnisoxíð (NOₓ) sem berast út í andrúmsloftið eftir hreinsivirki. Kísilryk er hreinsað í reykhreinsivirkjum verksmiðjunnar áður en afsog frá framleiðslunni fer út í andrúmsloftið. 
Við náttúrulegar aðstæður eru frumefnin kísill og járn bundin súrefni. Við framleiðslu á kísilmálmi þarf að losa súrefnisfrumeindir frá sameindum málmgrýtisins. Til þess er notað kolefni sem binst súrefni og myndar kolefnistvíoxíð (CO₂). Kolefnistvíoxíð er gróðurhúsalofttegund sem veldur hnattrænum gróðurhúsaáhrifum sem hefur áhrif á hlýnun jarðar. Ekki eru til aðferðir til að minnka kolefnistvíoxíð úr útblæstrinum en hægt er að minnka losun t.a.m. með notkun lífmassa en losun lífmassa hafa verið um 50.000 tonn á ársgrundvelli.
Munurinn á losun milli ára felst í framleiddu magni á kísilmálmi. Til dæmis voru framleidd fleiri tonn árið 2015 en 2014 sem hefur áhrif á losunina. Elkem Ísland hefur verið virkur þátttakandi í samfélagsverkefnum með það að leiðarljósi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. einn af stofnendum Hvalfjarðaganga sem sparar um 17.000 tonn af CO₂ á ársgrundvelli, skógrækt og orkuendurvinnsluverkefnum.
Orkan sem Elkem Ísland notar er framleidd með vatnsafli sem veldur hverfandi losun á CO₂. 
Við hjá Elkem höfum sett okkur markmið umfram lágmarkskröfur í starfsleyfi:

Vegna losunar gróðurhúsalofttegunda ætlum við:

  • Að minnka kolefnisfótspor starfseminnar um 50.000 tonn af CO₂ á ársgrundvelli fyrir árið 2020 miðað við árið 2015.

Vegna losunar á ryki ætlum við: 

  • Að draga úr rykmyndun vegna starfseminnar um 50 tonn á ári með fjárfestingu á nýjum búnaði og þátttöku starfsfólks fyrir árið 2018 miðað við árið 2014.

Vegna neyðarreyklosunar ætlum við:

  • Að viðhalda stöðugleika í rekstri þannig að heildarlengd reyklosunar haldist undir 0,5% af rekstrartíma ofna.