Skip to main content

Framleiðsluferlið

Elkem Ísland framleiðir kísilmálm og kísilryk úr málmgrýti (kvars og járngrýti) og kolefni (s.s. kol, koks og timburkurl) og notar til þess orku sem framleidd er með vatnsafli. 

Fyrirtækið uppfyllir skilyrði um bestu fáanlegu tækni (BAT) og bestu umhverfisvenjur (BEP). Framleiðslan er vottuð skv. ISO 9001 gæðastjórnunarstaðlinum og ISO 14001 umhverfisstjórnunarstaðlinum. Hjá Elkem Ísland starfa um 250 einstaklingar og búa um 80% þeirra á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit. Við störfum eftir ákveðnum verkferlum sem hafa þann tilgang að gera vinnustaðinn öruggari, heilsusamlegri og takmarka neikvæð áhrif starfseminnar á umhverfið.
Núgildandi starfsleyfi Elkem Ísland gildir til september 2025. Árleg framleiðslugeta fyrirtækisins er um 120.000 tonn af kísilmálmi miðað við 75% kísilinnihald og um 25.000 tonn af kísilryki. Starfsleyfið heimilar framleiðslu á 190.000 tonnum af kísilmálmi miðað við 75% kísilinnihald og 45.000 tonnum af kísilryki. 
Í verksmiðju Elkem Ísland eru þrír ljósbogaofnar, tveir 37 MW og einn 47 MW. Í ofnunum hvarfast kvars og járngrýti við kolefni og myndar fljótandi kísilmálm. Ofnarnir eru hálflokaðir með reykhettu. Afsog frá ofnum fer um kælivirki og reykhreinsivirki, þar sem kísilryk er hreinsað frá með pokasíum. Hreinsað afsog fer út í andrúmsloftið í gegnum mæni síuhúsanna. Hreinsað afsog inniheldur m.a. lofttegundirnar kolefnistvíoxíð, brennisteinstvíoxíð og nituroxíð. Fljótandi kísilmálmi, um 1700°C heitum, er tappað úr ofnunum í deiglur. Kísilmálmurinn er annars vegar steyptur beint út í hleifa eða steyptur beint út og malaður. Ryk sem fellur til við mölun á kísilmálmi er endurunnið með því að bæta því við kísilmálminn fyrir útsteypingu sem íblöndunarefni. Málmurinn er kældur með vatni til að flýta fyrir storknun og auka styrkleika hans. Við það myndast vatnsgufa sem safnað er saman og blásið er upp úr verksmiðjunni. Gufustrókurinn sést reglubundið frá verksmiðjunni allan sólahringinn í takt við útsteypingu kísilmálmsins. Hleifarnir eru síðan malaðir, efnið sigtað og loks flutt til útlanda með skipum til viðskiptavina. Ofnarnir eru að jafnaði í rekstri allan sólarhringinn allt árið um kring að undanskildum stuttum viðhaldsstoppum.